Meirihluti þeirra, sem tóku afstöðu í skoðanakönnun, sem Capacent Gallup gerði fyrir þingflokk VG, var andvígur álveri í Helguvík á Reykjanesi. Meirihluti íbúa á Suðurnesjum er hins vegar hlynntur framkvæmdinni, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Könnunin var gerð á tímabilinu 19. - 30. júní. Úrtakið var 1200 manns á öllu landinu auk 200 manna aukaúrtaks af Reykjanesi. Svarhlutfall var 65,4%. Af heildarúttakinu voru 41,6% andvíg álveri í Helguvík, 36% hlynnt en 22,4% tóku ekki afstöðu.
Meðal Suðurnesjamanna voru 65,6% hlynnt framkvæmdinni, 21,6% andvíg og 12,9% tóku ekki afstöðu.
Í tilkynningu frá VG kemur fram að flokkurinn hafi m.a. viljað kanna hvort innistæður væru fyrir síendurteknum fullyrðingum um að andstaða við frekari stóriðjuframkvæmdir og frekari ál- og stóriðjuvæðingu íslensks efnahagslífs færi nú dvínandi sökum óstjórnar í efnahagsmálum og meintrar kreppu. Niðurstöður könnunarinnar séu afdráttarlausar og meirihluti landsmanna hafni áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum hvort heldur sem er sem skynsamlegu úrræði í atvinnumálum eða sem lið í lausn tímabundinna og að mestu heimatilbúinna efnahagsþrenginga.
Þá sé athyglisvert að sjá hversu umtalsverð andstaða eða efasemdir heimamanna á Suðurnesjum séu við framkvæmdina þó vissulega sé meirihluti íbúa á svæðinu henni fylgjandi.
„Enn og aftur kemur í ljós að góður meirihluti landsmanna styður baráttu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fyrir fjölbreyttu atvinnulífi í stað blindrar áherslu á stóriðju og fyrir vernd íslenskrar náttúru og sjálfbærri þróun," segir í tilkynningu VG.