Gagnrýna stöðu löggæslumála í Reykjavík

Minnihluti borgarráðs Reykjavíkur lagði á fundi ráðsins í dag fram bókun þar sem ítrekaðar eru athugasemdir við að í vinnu nefndar borgarstjóra að miðborgarmálum skuli ekki hafa verið kallað eftir aukinni og sýnilegri löggæslu.

Vísað er til þess að á fundi borgarráðs 3. júlí hafi minnihlutinn óskað eftir því að kannað verði hvernig þróun mannafla lögreglunnar á miðborgarvakt hafi orðið frá því síðasta sumar en síðasta haust var kynnt að sýnileg löggæsla yrði efld í miðborginni.

„Furðu vekur að borgarráði hafi ekki verið svarað og mat lagt á þá stöðu sem uppi er í löggæslumálum borgarinnar því engin ein aðgerð er mikilvægari í málefnum miðborgarinnar en að tryggja aukna og sýnilega löggæslu. Staðan í þeim efnum er grafalvarleg ef marka má fréttatilkynningu sem fór frá skrifstofu borgarstjóra í gær. Þar segir að „samkvæmt heimildum frá lögregluembættinu voru aðeins níu lögregluþjónar á vakt í miðborginni aðfaranótt 6. júlí sl. Tólf lögregluþjónar voru á vakt aðfaranótt 12. júlí og fjórtán aðfaranótt 13. júlí." Ekki verður annað sé en að þetta séu enn lægri tölur en Stefán Eiríksson lögreglustjóri hefur gefið upp í fjölmiðlum. Ljóst er að miðað við þessa stöðu er ekki aðeins alls ófullnægjandi miðborgarvakt heldur má vera ljóst að viðvera sýnilegrar lögreglu um helgar í hverfum borgarinnar og nágrannasveitarfélaga er lítil sem engin. Löggæsla er grundvallar almannaþjónusta. Því hlýtur að verða að knýja á um skýr svör og tafarlausar úrbætur af hálfu dómsmálayfirvalda," segir í bókun minnihlutans frá í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert