Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Óskar Magnússon, talsmaður Kerfélagsins, ræddu ólík sjónarmið og skoðuðu Kerið í sumarveðrinu í gær. „Við áttum yndislega stund, “ segir Óskar. „Við vorum sammála um ýmislegt en þetta var enginn formlegur fundur og stóð aldrei til að komast að niðurstöðu strax. En ég fagna jákvæðri umræðu um grundvallarmál.“
Kerið hefur nú verið lokað ferðamönnum sem koma á rútum á vegum stóru ferðaskrifstofanna í tvo daga. Lögfræðingar opinberra aðila sem ráðist hafa í framkvæmdir við Kerið fara yfir hvort eigendum sé stætt á að loka fyrir umferð og samtímis hefur kviknað umræða um gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum. Óskar vill gera greinarmun á einstaklingum og ferðamönnum sem koma í stórum hópum á vegum fyrirtækja í atvinnurekstri.
„Auðvitað berjast rútufyrirtækin gegn gjaldi, þau eru í bissniss og græða á áníðslu lands sem aðrir borga. Þessi greinarmunur er lykill að lausninni. Það vilja ekki allir sem eiga náttúruperlur setja upp þjónustu og okra á pulsusölu eins og rútu fyrir tækin hafa lagt til við mig, “ segir Óskar.