Skriðþungi Evrópuumræðunnar fer vaxandi og hafin er umfangsmikil vinna við rækilega skoðun og kortlagningu Evrópusambandsmála. Þar ber hæst starf þverpólitískrar Evrópunefndar ríkisstjórnarinnar, sem sett var á laggirnar fyrr á þessu ári. Það vekur athygli að samhliða viðamiklu verkefni hennar er hafin vinna í a.m.k. tveimur ráðuneytum við úttektir á stórum og þýðingarmiklum málaflokkum á vettvangi ESB.
Þó fram hafi farið ýtarlegar úttektir á stöðu Íslands gagnvart ESB á umliðnum árum og skrifaðar langar skýrslur virðist þeirri vinnu sem nú er hafin ætlað að koma meiri hreyfingu á Evrópuumræðuna.
Evrópunefndin á að standa vaktina og fylgjast með þróun mála í Evrópu út kjörtímabilið. Tveir þingmenn stjórnarflokkanna, Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, og Ágúst Ólafur Ágústsson, Samfylkingu, stýra starfi hennar. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi auk fulltrúa frá ASÍ, BSRB, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands. „Okkur er ætlað að fylgjast með þróun mála hjá ESB og skila ríkisstjórninni skýrslu með reglulegu millibili. Við byrjuðum í vor og höfum aðallega á fundum okkar verið að fjalla um mál sem snúa að Lissabonsáttmálanum, þær miklu breytingar sem hafa verið í farvatninu hjá ESB og leggja mat á hvaða áhrif þetta hefur á samstarf okkar við bandalagið,“ segir Illugi.
Hann leggur áherslu á að viðfangsefnið sé stórt og þýðingarmikið til framtíðar litið og snúist því ekki um að koma með ákveðnar niðurstöður eða tillögur á næstu vikum eða mánuðum. Nefndinni sé ekki ætlað að skoða aðildarumsókn að ESB og það sé mun víðtækara en svo að menn beini eingöngu sjónum að gjaldmiðilsmálum. „Við erum ekki að vinna að þessu verkefni í þeim tilgangi að leysa núverandi efnahagsvanda,“ segir hann.