Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkur samþykkti á fundi í gær að leggja til að Mýrargata og Geirsgata verði lagðar í samfelldan lokaðan stokk frá Ánanaustum að Sæbraut til móts við Faxagötu.
Í bókun ráðsins er lagt til, að á yfirborði verði gert ráð fyrir almenningssamgöngum, þ.e. bæði fyrir strætó og að einnig verði frátekið svæði fyrir mögulegt léttlestarkerfi. Þá verði gert ráð fyrir hjólareinum. Miðað er við að hámarkshraði bílaumferðar verði ekki meiri en 30 km á klukkustund.
Í bókuninni segir að samkvæmt umferðarspá ráðgjafa fyrir árið 2017 sé gert ráð fyrir umferð á Geirsgötu til móts við Tollhúsið verði 31 þúsund bílar á sólarhring á yfirborði í útfærslu í samræmi við fyrsta áfanga. Áætlað er að í löngum stokk að Ánanaustum verði umferðin 22 þúsund bílar á sólarhring árið 2017. Miðað við þetta sé því þörf fyrir fjórar akreinar í framlengdum stokk svo að hann anni vel umferðinni á þeim tímapunkti.
Enn fremur hefur verið gerð umferðarspá fyrir 15 þúsund manna byggð á fyllingum við Örfirisey, þessu til viðbótar. Umferð í löngum stokk esé áætluð 37 þúsund bílar á sólarhring miðað við þær forsendur.