„Óvissan er það mikil að það verður mjög erfitt að koma fasteignamarkaðnum af stað. Fólk veit ekki einu sinni hvaða mynt verður hér eftir tvö ár, ofan á allt annað, og þess vegna hefur maður ekki trú á því að fólk sé tilbúið í miklar skuldbindingar,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, um stöðuna á fasteignamarkaði.
Íbúðalán banka og sparisjóða drógust saman um 93 prósent í júní frá sama tíma í fyrra. Íbúðalánasjóður er nú nánast einráður á íbúðalánamarkaði vegna lausafjárkreppunnar sem fær banka og sparisjóði til að halda að sér höndum í útlánum.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem boðaðar voru 19. júní til þess að reyna að glæða fasteignamarkaðinn lífi hafa ekki haft mikil áhrif á markaðinn og velta er enn lítil og um 80 prósent minni en hún var um mitt ár í fyrra. „Þetta er birtingarmynd lausafjárvandans,“ segir Þórólfur.
Magnús Skúlason, hagfræðingur og eigandi ráðgjafarfyrirtækisins Reykjavík Economics, segir lengri tíma þurfa til þess að meta áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar á fasteignamarkaðinn. „Það hefur ýmislegt verið gert. Íbúðalánasjóður hefur verið efldur og stimpilgjöld lögð niður vegna kaupa á fyrstu íbúð. Það er ekki ljóst enn hvaða áhrif þessar aðgerðir koma til með að hafa. Velta á markaðnum hefur ekki aukist mikið en atvinnuhorfur hjá fólki munu að lokum ráða miklu um hvernig málin þróast,“ segir Magnús.