„Þetta var alls ekki skemmtileg lífsreynsla en ég reyndi bara að halda ró minni. Það fyrsta sem ég gerði var að skipa eiginkonu minni og tveimur ungum dætrum út úr húsinu. Svo klæddi ég mig í lopapeysu og leðurvettlinga og reyndi að slökkva eldinn,“ segir Benedikt Ásgeirsson sem tókst að slökkva eld í gangnamannaskálanum í Leppistungum við Kerlingarfjöll aðfaranótt miðvikudags.
„Við ætluðum að tjalda í Ásgarði en ákváðum að halda í skálann vegna veðurs. Þar kveiktum við upp í kabyssunni og fundum undarlega lykt þegar klukkan var að ganga tíu. Við fundum samt ekkert að. Þegar við héldum svo í háttinn um ellefuleytið, rak konan mín augun í glóð uppi með strompinum. Það var greinilega alveg skelfilega illa gengið frá kabyssunni uppi við loftið, það var ekki blikkklætt eins og það á að vera heldur hafði verið lögð þar krossviðarplata. Það læstist eldur í klæðninguna.“
Gangnamannaskálinn er tugi kílómetra frá mannabyggð. Benedikt hefur margsinnis gist áður í skálanum. „Maður hafði bara ekki veitt því athygli áður hve frágangurinn í skálanum var fáránlega lélegur. Í þokkabót virkaði aðeins einn reykskynjari af þremur. Ég ætla að fara fram á að þetta verði lagað í öllum skálunum hérna,“ sagði Benedikt Ásgeirsson.