Veruleg umhverfisáhrif af rannsóknarholu í Gjástykki

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu, að fyrirhuguð borun rannsóknarholu í Gjástykki norður af Kröflu kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum.

Byggir stofnunin þessa niðurstöðu á því, að um er að ræða framkvæmd sem kunni að hafa umtalsverð neikvæð og varanleg áhrif á jarðmyndanir og landslagsgildi svæðis sem sé lítt snortið af mannvirkjum. Þá telur stofnunin ljóst að verndargildi háhitasvæða aukist eftir því sem fleiri svæði eru tekin undir orkuvinnslu og aðra mannvirkjagerð.

Framkvæmdin er á svæði sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Hefur Umhverfistofnun  gert tillögur til umhverfisráðherra um að svæðið skuli undirbúa til  friðlýsingar vegna mikils verndargildis, einkum vegna jarðmyndana, landmótunar, s.s. eldvirknisprungna og gliðnunar, landslags, útivistar og fræðslugildis.

Skipulagsstofnun segir að líkur séu á að í Gjástykki sé háhitasvæði og virkjanlegur jarðhiti og því eðlilegt, í ljósi reynslu, að mjög fljótlega eftir borun fyrstu rannsóknarholu verði kynnt áform um frekari boranir sem kunni að hafa í för með sér aukin neikvæð umhverfisáhrif.

Rannsóknarholan í Gjástykki er liður í könnun á stærð jarðhitasvæða á Norðausturlandi og grundvöllur ákvörðunar um hvort vænlegt þyki að ganga til samninga um orkusölu til álvers á Bakka við Húsavík.  

Niðurstaða Skipulagsstofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert