Dómsmálaráðuneytið segir, að alls hafi 44 lögreglumenn, þegar mest var, sinnt löggæslu á höfuðborgarsvæðinu aðfaranótt síðasta sunnudags. Dómsmálaráðherra, lýsti á fundi með borgarstjóra í dag, undrun á því að hve erfitt hefði reynst að réttun tölum á framfæri í fjölmiðlum.
Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segr, að á fundinum hafi Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skýrt frá því, að fjárveitingar til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefðu fylgt almennri launa- og verðlagsþróun og væri nú varið rúmlega þremur milljörðum króna til löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Hækkun eldsneytis setti hins vegar strik í reikning embættisins á þessu ári og skapaði rekstrarvanda en lögreglumannafjöldi væri nú svipaður og fyrir ári eða um 330 lögreglumenn.
Þá sagði Björn, að viðbúnaður lögregluembættisins á höfuðborgarsvæðinu að kvöldi laugardagsins 12. júlí og aðfaranótt sunnudagsins 13. júlí sl. hefði verið mun meiri en komið hefði fram í fjölmiðlum. Sagt hefði verið að aðeins 14 lögreglumenn hefðu verið á vakt á höfuðborgarsvæðinu að kvöldi 12. júlí, þeir hefðu verið 24.
Aðfaranótt sunnudagsins 13. júlí voru 29 lögreglumenn á vakt í almennri deild lögreglunnar frá kl. 23 til kl. 7:30. Til viðbótar voru tveir lögreglumenn á vakt frá kl. 23.30 til kl. 5 og tveir frá umferðardeild til kl. 2. Á vakt voru því 33 lögreglumenn þegar mest var, en síðan 31 til kl. 5 og 29 lögreglumenn til morguns. Þessa sömu nótt voru 6 sérsveitarmenn til viðbótar við það sem áður er talið á vakt á þremur lögreglubifreiðum auk 5 lögreglumanna hjá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Alls voru það því 44 lögreglumenn, þegar mest var, sem sinntu löggæslu á höfuðborgarsvæðinu þessa laugardagsnótt.