Sjómenn um allt land íhuga nú að fara að dæmi Ásmundar Jóhannssonar sjómanns og hefja kvótalausar veiðar. Þá hafa tugir undirskrifta safnast honum til stuðnings.
Ásmundur, sem Landhelgisgæslan stöðvaði við veiðar í fyrradag, segist ekki ætla að hætta veiðum fyrr en hann verður kærður.
„Kvótinn af skipinu sem ég átti var hirtur og nú er komið að reikningsskilum. Ef mér verður stungið inn þá er það bara þannig,“ segir hann. „Það væri nú ekki ónýtt fyrir mannréttindadómstólinn ef ég yrði settur í fangelsi fyrir að leita réttar míns í þessu máli,“ bætir hann við.
Gætu orðið hundruðir manna
Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslyndra, segir marga sjómenn vítt og breitt um landið íhuga að fara að dæmi Ásmundar. „Menn eru bara ekki byrjaðir því þeir eru margir, sérstaklega þeir sem eiga fyrir fjölskyldu að sjá, skíthræddir við að lenda í miklum vandræðum út af þessu,“ segir hann.
Níels Ársælsson, skipstjóri á Tálknafirði, segir að fleiri þurfi að brjóta ísinn til að fjöldinn fylgi á eftir. „Ef það fengjust, þó ekki væru nema tuttugu manns, þá kæmi rosaleg samstaða. Það kæmu örugglega nokkur hundruð á eftir þeim,“ segir hann.
Beðið eftir áliti nefndar
Hallgrímur Guðmundsson, formaður Framtíðar - Samtaka sjálfstæðra í sjávarútvegi, tekur í sama streng en bendir á að margir, félagsmenn samtakanna meðal annarra, bíði álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en á því er von um miðjan ágúst. „Ef nefndin verður samkvæm sjálfri sér og sendir þetta beint í hausinn á stjórnvöldum aftur þá fer fjöldi manna af stað,“ segir Hallgrímur.
Þá hafa hátt í hundrað undirskriftir safnast á netinu þar sem lýst er yfir stuðningi við Ásmund og þeim „mannréttindabrotum sem kvótakerfið stendur fyrir,“ er mótmælt.
Í hnotskurn
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ályktaði að kvótakerfið væri ósanngjarnt. Það hygli þeim sem fengu kvótaúthlutun í upphafi. Í svari sjávarútvegsráðherra kemur fram að breytingar á kvótakerfinu sé langtímaverkefni og verði starfshópi falið það starf.