„Núna erum við í raun aðeins með tvær og hálfa þyrlu í notkun, stundum ekki með nema eina í gangi í einu og það er ekki boðlegt. Þegar það er aðeins ein þyrla tiltæk þá förum við ekki út á sjó, því við viljum hafa stuðning annarrar þyrlu, fyrir okkur og fyrir aðra, sérstaklega okkur, en Bandaríkjaher gegndi áður því hlutverki að vera bakhjarl fyrir okkur,“ segir Jakob Ólafsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, um stöðu mála hjá Gæslunni.
„Það var til umræðu að fastráða ekki þrjá þyrluflugmenn eða að leggja einu varðskipinu í sparnaðarskyni. Þetta er á fallanda fæti. Þetta var ágætt á tímabili en nú er aftur farið að hrikta í.“
Jakob segir að eins og staðan sé núna séu verulegar líkur á að Landhelgisgæslan geti ekki sinnt björgun með þyrlum á hafi úti 250 sjómílur frá landi og að grípa verði til þess örþrifaráðs að fara aðeins 150 sjómílur frá landi, ellegar að fara hvergi. Neyðarúrræðið þýði því í raun að þá sé ekki hægt að sinna öðrum björgunum með þyrlum á sjó eða landi á meðan útkallið standi yfir.