Fellibylurinn Bertha er nú á hægu skriði í norðurátt. Ekki er búist við því að hún komi hingað heldur eru Færeyjar líklegri áfangastaður. Hún veldur því þó að veðurspár þessa dagana eru á miklu flökti.
Fellibylurinn Bertha sem lét til sín taka við Bermúdaeyjar fyrir skömmu er nú á hægri siglingu norður í höf. Bertha er reyndar ekki flokkuð sem fellibylur lengur heldur sem hitabeltisstormur. Hún nær nú tíu vindstigum en fellibylur þarf að ná tólf.
Þorsteinn V. Jónsson, hjá Veðurstofu Íslands, sagði að leifar Berthu myndu líklega fara yfir Færeyjar en ekki Ísland þótt ekkert væri útilokað í þeim efnum.
„Það er sæmilegur kraftur í henni ennþá og við spáðum því í gær að vindasamt yrði á þriðjudag sem afleiðing af nálægð hennar. Þeirri spá var svo breytt í morgun. Við sjáum svo til hvernig þetta lítur út í kvöld,“ sagði Þorsteinn.
Flökt í veðurkortum
Þorsteinn sagði að mjög erfitt væri að spá fyrir um veður næstu daga, kortin væru afar óljós. Þegar fellibylur væri á ferðinni hefði hann víðtæk áhrif á veðurfar og gerði það að verkum að mikið flökt væri í veðurkortum. „Við viljum því í raun segja sem minnst núna um veðrið næstu daga,” sagði Þorsteinn.
Sem stendur lítur út fyrir að lægð komi upp að landinu á mánudaginn og gefur hún vætu sunnan- og austanlands. Bertha væri hins vegar langt frá landi og lítil hætta á að tjaldvagnar færu að fjúka.
Best er að fylgjast vel með veðurspá þar sem hún breytist dag frá degi.
Upplýsingar um Berthu á vef bandarísku fellibyljastofnunarinnar.