Tal foreldra hvetur til megrunar barna

„Þessar tölur samrýmast öðrum rannsóknum sem gerðar hafa verið hér á landi,“ segir Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans, um frétt í 24 stundum um að um þriðjungur íslenskra stúlkna á aldrinum 13 og 15 reyni að megra sig. „Við fáum til okkar krakka allt niður í átta ára með átraskanir.“

Í fréttinni sagði frá rannsókn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, en hún leiddi í ljós að hvergi í því 41 landi sem rannsóknin náði til, sagðist jafnhátt hlutfall stúlkna í áðurnefndum aldursflokki gera eitthvað til að megra sig.

„Samfélag krakkanna er svo lítið að hópþrýstingur um að vera eins og aðrir hefur kannski meiri áhrif hér en víða annars staðar. Það eru svo fáir sem skera sig úr, og þá verða þeir svo áberandi. Ef hópi krakka þykir eðlilegt að vera í megrun hefur slíkt því hugsanlega meiri áhrif vegna smæðarinnar,“ segir Sigrún.

Mikið hefur verið rætt um áhrif þeirra líkamsímynda sem haldið er að börnum og unglingum í fjölmiðlum. Ekki má þó gleyma hlutverki fjölskyldu og vina í þessu samhengi, bendir Sigrún á.

„Fólk gleymir því að það gildismat sem er ríkjandi í daglegu lífi hefur mest áhrif á krakkana, þ.e. gildismat fjölskyldu og vina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert