Greint er frá því á fréttavefnum Greenbay Pressgazette að verð á íslenskum þorski hafi hækkað um 50% að undanförnu og að veitingamenn á Green Bay svæðinu í Wisconsin berjist nú við að halda verðinu á steiktum þorski viðráðanlegu á veitingastöðum sínum.
„Þetta er annar vinsælasti rétturinn hjá okkur, segir Brent Weycker, veitingamaður Titletown Brewing Co., en þar kostar þorskskammtur með frönskum kartöflum nú 12.99 dollara. Segir hann hráefnið hafa hækkað um 20 cent á pundið á undanförnum mánuðum en að hann hafi tekið þá hækkun á sig þar sem hann leggi mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum upp á hagstætt verð.
Tyson Theese, veitingamaður á Ten-O-One Club, tekur í sama streng en segir fisk ekki vera eina hráefnið sem hafi hækkað mikið í verði að undanförnu. „Það er allt að verða erfiðara, hráefni, vinnuafl og allir þessir hlutir,” segir hann og nefnir m.a. aukinn flutningskostnað vegna hækkana á eldsneytisverði.
Verð á þorski var hins vegar nýlega hækkað um nærri 60% á á hinum þekkta veitingastað Serb Hall í Milwaukee en þar eru um 60% allra seldra rétta eru eldaðir úr þorski. Þá býður staðurinn nú einnig upp á smáskammta af þorski fyrir þá sem vilja bragða hann en ekki borða eða borga of mikið.
Aðrir veitingastaðir hafa, samkvæmt upplýsingum vefjarins, einnig minnkað þorskskammta sína eða skipt þorski út af matseðlinum fyrir ódýrari fisktegundir.