Átján manna hópur úr skátafélögunum Vífli í Garðabæ og Svönum frá Álftanesi hélt í gær af stað í þriggja daga hjólaferð yfir Kjalveg, en hópurinn valdi sér þennan óhefðbundna fararmáta til að komast á landsmót skáta að Hömrum við Akureyri en það hefst á þriðjudag.
Myndin er tekin á Bláfellshálsi þar sem hópurinn gisti fyrstu nóttina í tjaldi. Í sumar hefur hópurinn gert ýmislegt sér til skemmtunar, m.a. gengið Fimmvörðuhálsinn og siglt út í Viðey á kajak. Ekki ætti að væsa um hópinn í dag, en Veðurstofan spáir allt að 19 stiga hita og litlum vindi á miðhálendinu. Á mánudag mun þó kólna snarlega og er gert ráð fyrir rigningu og 10 stiga hita.
Að gefnu tilefni vilja hjólreiðamennirnir biðja vegfarendur sem sjá 18 manna hjólahóp í gulum vestum að sýna tillitssemi og hægja á ferðinni svo allir komist heilir á áfangastað.