Trausti Valdimarsson varð hlutskarpastur í svonefndu Tíbetmaraþoni, sem hlaupið var í þorpinu Leh í Ladakh-héraði í Indlandi í morgun. 32 Íslendingar tóku þátt í hlaupinu, sem er talið vera það erfiðasta í heimi en það fer fram í 3800 metra hæð yfir sjávarmáli.
Að sögn Sævars Skaptasonar, framkvæmdastjóra Ferðaþjónustu bænda, sem skipuleggur ferð Íslendinganna, hljóp Trausti á 3 klukkustundum og 45 mínútum. Pétur Helgason varð þriðji í hlaupinu á 3 stundum og 57 mínútum. Allir Íslendingarnir luku hlaupinu en hægt var að hlaupa heilt maraþon, hálft maraþon auk 10 og 5 kílómetra.