Talsmenn stjórnarandstöðunnar töldu skipun Tryggva Þórs Herbertssonar sem efnahagsráðgjafa forsætisráðherra yfirleitt vera af hinu góða, þegar álits þeirra var leitað í gær, en þeir höfðu samt sínar athugasemdir.
„Ekki veitir nú blessuðum forsætisráðherranum af að reyna að styrkja eitthvað sig í glímunni við efnahagsmálin," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. „Jafnmikið og lengi og ég hef hvatt hann til þess að reyna að taka sér tak í þeim efnum þá kæmi það úr hörðustu átt ef ég færi að gagnrýna það að hann reyni að styrkja ráðuneytið með meiri sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Ég ætla ekki að leggjast gegn því nema síður sé. Einhverjir mundu segja að hann hefði fyrir löngu þurft að vera búinn að fá sér liðsauka – að minnsta kosti til að koma einhverju í verk." Steingrímur sagðist ekki hafa neitt gott um Tryggva að segja, það litla sem hann þekkti hann.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, kvaðst ekki hafa neitt út á Tryggva að setja, hann sé fær maður, en sagði að ráðning hans kæmi sér á óvart og sýndi vandræðaganginn innan ríkisstjórnarinnar.
„Forsætisráðherra er með fullt af ráðgjöfum hjá sér í ráðuneytinu og fjármálaráðherrann með annan eins hóp hjá sér ef þetta snýr að efnahagsmálum. Hagfræðingarnir í Seðlabankanum eru fjörutíu og Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðherra," sagði Guðni.
Ekki náðist í Guðjón A. Kristjánsson, formann Frjálslynda flokksins, en Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokks frjálslyndra, kvaðst telja ráðningu efnahagsráðgjafans fremur jákvætt skref. „Það er nauðsynlegt að allir leggist á eitt við að ná tökum á efnahagsmálunum. Ég vænti þess að ætlun forsætisráðherra með þessari ráðningu sé einmitt að vinna að því. Ég tel þetta frekar skref í rétta átt og vona að eitthvað gott komi út úr því."