Hópur fólks vakti fólk í dag til umhugsunar um hættu á vaxandi fordómum í garð Austur-Evrópubúa með því að ganga um miðborg Reykjavíkur íklæddur stuttermabolum með áletruninni: Félagi í litháísku mafíunni.
Gjörningurinn var á vegum Félags Litháa og Sub Rósu-Rannsókn, skapandi sumarhóps Hins Hússins. Félag Litháa var m.a. stofnað í þeim tilgangi að bæta ímynd Litháa en margir Litháar hafa orðið varir við aukna tortryggni í þeirra garð.
Í tilkynningu frá félaginu segir að þessi tortryggni birtist einkum sem erfiðleikar við að fá leiguhúsnæði og vinnu í samræmi við menntun og reynslu. Einnig verði fólk vart við neikvætt viðmót þegar vitað sé um þjóðerni sem oft á tíðum hindri möguleikann á því að tengjast inn í samfélagið.