Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, segist enn ekki hafa haft tækifæri til að kynna sér almennilega rök þingflokks VG fyrir því að Alþingi komi saman þegar að lokinni verslunarmannahelgi til að fjalla um stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum. Hann segist þó ekki sjá það fyrir að það verði gert.
„Það liggur fyrir að þingið muni koma saman 1. september og úr því sem komið er geri ég ekki ráð fyrir að ástæða verði talin til að kalla það saman fyrr" sagði hann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „Menn hafa bara þeim mun betri tíma til að undirbúa sig."
Sturla segir ljóst að ástandið í efnahagsmálum verði rætt á haustþinginu, sem standa mun í tvær vikur. Hann geri ráð fyrir að það verði bæði rætt í utandagskrárumræðum og fyrirspurnartímum samhliða því sem önnur mál sem liggja fyrir þinginu verði afgreidd.
Þá segir hann hugsanlegt að nefndir þingsins verði kallaðar saman fyrr en ráð hafi verið gert fyrir og að þær hafi þá kost á að kalla ráðherra og sérfræðinga á sinn fund. Það sé reyndar nefndarhlé í júlímánuði en hugsanlegt sé að rjúfa það telji menn brýna nauðsyn til.
Þingflokkur hefur sent forsætisráðherra, forseta Alþingis og formönnum fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar bréf þar sem farið er fram á Alþingi komi saman þegar að lokinni verslunarmannahelgi til að fjalla um stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum.
Flokkurinn leggur jafnframt til að fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd komi þegar saman til sameiginlegra fundi og boði til sín helstu sérfræðinga á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála sem og aðila vinnumarkaðarins og helstu hagsmunasamtök.