Húsavíkurhátíðin, sem samanstendur af sænskum dögum og Mærudögunum, var formlega sett í Sjóminjasafninu á Húsavík síðdegis í dag. Sænsku dagarnir standa fram á fimmtudag og þá taka Mærudagarnir, sem fyrst voru haldnir fyrir 14 árum, við og lýkur þeim á sunnudag.
Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri Norðurþings setti hátíðina með því að slá í forláta skipsbjöllu af sjóminjasafninu. Aðrir sem tóku til máls voru sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, frú Madeleine Ströje Wilkens, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Cristina Husmark Pehrsson, samstarfsráðherra Svíþjóðar, sem fyrr í dag afhenti 65 milljónir króna frá sænskum stjórnvöldum til Garðarshólmaverkefnisins á Húsavík.
Sænski kórinn Hembrygden söng nokkur við þetta tækifæri en að setningu lokinni voru opnaðar tvær sýningar í Safnahúsinu. Handverkssýning Önnu Hederstrand, sem einnig er meðlimur í sænska kórnum, og myndlistarsýning Thors Vilhjálmssonar.