Jón Kjartansson SU-111 kom til Eskifjarðar í gærmorgun með fullfermi, um 2.400 tonn af makríl og síld. Skipið hefur verið á partrolli með Aðalsteini Jónssyni SU-11 sem einnig kom í land í gær.
Hluti afla Aðalsteins var unninn um borð og kom skipið með um 480 – 490 tonn af frystum afurðum og 1.200 tonn í bræðslu. Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni, áætlaði að aflinn um borð í Jóni skiptist í um 70% af makríl og 30% af síld. Hann fer allur í bræðslu.
Grétar sagði að makríllinn væri stór, fallegur og mjög feitur og gæfi mikið lýsi. Síldin var einnig væn. Aðspurður um aflaverðmæti sagði Grétar að þessi túr væri svipaður og sá síðasti. Þá var aflaverðmætið um 55 milljónir króna.
Túrinn tók viku og voru skipin að veiðum á Þórsbanka og Rauða torginu. Landleiðin var um 140 sjómílur. Grétar sagði að veiðin hefði verið upp og ofan. Bræla tafði í sólarhring, en besta halið gaf 570 tonn.
Reiknað er með að skipin haldi aftur til veiða í dag. Grétar sagði mikið eftir af síldarkvóta skipanna en makríllinn er utan kvóta og veiðar á honum frjálsar. Góður makrílafli er því eins og lottóvinningur. Grétar sagði erfitt að átta sig á því hve mikill makríll væri á miðunum. Hann héldi sig uppi undir yfirborði sjávar og væri vont að sjá hann í fiskileitartækjum.