„Úrkoman er að renna yfir sunnan- og vestanvert landið, og fer norðar í kvöld og nótt, og þá fer að draga verulega úr rigningunni, svo rofar víða til síðdegis á morgun," segir Sigrún Karlsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Mikil úrkoma hefur verið á sunnan- og vestanverðu landinu í dag, og segir Sigrún að þetta séu leifar af fellibylnum Berthu sem eru orðnar að venjulegri lægð. Bertha lét til sín taka við Bermúdaeyjar fyrir skömmu en hefur verið á hægri siglingu norður í höf.
Aðspurð hvort búast megi við miklu hvassviðri segir Sigrún ekki búist við því. „Lægðarmiðjan sjálf fer yfir landið, við höfum verið að spá um 10-15 metrum á sekúndu, þegar lægðin er komin norður í land snýst vindur í vestlæga átt, og gæti farið í allt að 18 metra á sekúndu á annesjum norðaustanlands, en verður sennilega ekki hvassara en það," segir Sigrún.
Að sögn Sigrúnar er spáð suðaustlægri átt og rigningu öðru hvoru sunnan og vestan til á landinu út vikuna, og bjartviðri norðaustan til á landinu.