Cristina Husmark Pehrsson, samstarfsráðherra Svíþjóðar, mun í dag afhenda svonefndu Garðarshólmaverkefni á Húsavík 500 þúsund sænskar krónur, jafnvirði um 6,5 milljóna íslenskra króna, frá sænskum stjórnvöldum, að því er kemur fram í tilkynningu frá ráðuneyti Pehrsson.
Garðarshólmi er fyrirhuguð alþjóðleg þekkingarmiðstöð á sviði sjálfbærrar þróunar þar sem verður alþjóðlegt framboð á menningu, ráðstefnum, og listasmiðjum auk þess að vera upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Er verkefninu ætlað að styrkja menningartengsl Íslands og Svíþjóðar og eru Karl Gústaf, konungur Svíþjóðar, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verndarar verkefnisins.
Nafn verkefnisins vísar til þess, að sænski víkingurinn Garðar Svavarsson sigldi fyrstur í kringum Ísland árið 870 og hafði vetursetu við Skjálfandaflóa. Stefnt er að því að setrið verði opnað árið 2009.