Ragnar Frank Kristjánsson, lektor við Landbúnaðarháskólann og fyrrum þjóðgarðsvörður í Skaftafelli, vekur máls á því í grein í Morgunblaðinu í gær að fjármagn til uppbyggingar og viðhalds á vinsælum ferðamannastöðum sé engan veginn nægilegt.
Fullyrðir hann að eftirliti og viðhaldi með vinsælum ferðamannastöðum sé það bágborið að víða sé slysahætta af mannvirkjum sem byggð hafa verið. Einnig heldur hann því fram að stefna ríkisins í umsjón ferðamannastaðanna sé óskýr, margar ríkisstofnanir sjái um þjóðgarða, friðlönd og þjóðjarðir.
Ekki náðist í Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra vegna málsins. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segist vera sammála því að of margir komi að umsjá þjóðgarða. Stefnumótun gæti orðið skýrari og ef tekin verði upp gjaldtaka sé hentugra að ein stofnun hafi það með höndum. Þá telur hann að gjaldtaka kunni að vera lausn til að kosta þá þjónustu sem veitt er. „Við höfum ekki meiri skattpeninga til að taka af, það er alla vega ekki mikið, og Umhverfisstofnun er til dæmis klárlega undirfjármögnuð, svo ég taki dæmi,“ segir Árni.
„Mér finnst eðlilegt að skoða til framtíðar að þetta sé á einni hendi af hálfu ríkisins. En mér finnst skipta máli [að heimamenn hafi aðkomu að stjórn garðsins], og ég held að það hafi sýnt sig þetta ár sem stjórnkerfi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið í gangi,“ segir Anna Kristín Ólafsdóttir, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.