„Það eru auðvitað mikil tímamót að það komi upp í fyrsta skipti í mjög langan tíma, að fangageymslur lögreglu skuli vera tómar aðfaranótt laugardags,“ segir Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri í Reykjavík, en helgin var óvenjutíðindalítil hjá lögreglunni.
„Ég held að þetta sé mjög gott dæmi um það að okkar átak í miðborginni, ekki síst í öryggismálum, sé að skila árangri,“ segir Ólafur.
Hreyfanleg stöð á dagskrá
Borgarstjóri er mjög hlynntur hreyfanlegri lögreglustöð á Lækjartorgi. „Ég vonast til þess að henni verði komið á fót fljótlega. Enda er hún ekki síst hugsuð sem tímabundið verkefni meðan mannfjöldinn er sem mestur í bænum um helgar og yfir sumartímann,“ segir Ólafur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur það lengi staðið til að koma upp slíkri stöð en borgaryfirvöld hafa ekki úthlutað aðstöðu undir hana. Ekkert hafi heyrst frá borgaryfirvöldum í þessa veru. „Við vonuðumst til að geta komið upp slíkri aðstöðu sem myndi standa yfir menningarnótt en nú er júlí senn á enda. Boltinn er hjá borginni,“ segir Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn.