Enn er heitið á Strandarkirkju

Strandarkirkja þykir launa áheit vel.
Strandarkirkja þykir launa áheit vel. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ennþá heita menn á Strandakirkju. Samkvæmt munnmælum launar kirkjan áheitin. Áheit náðu hámarki 2003-2006.

Ennþá er heitið á Strandarkirkju, að sögn sr. Baldurs Kristjánssonar, en hann messar þar annan hvern sunnudag yfir sumarið.

Öldum saman hefur fólk heitið á Strandarkirkju í tengslum við alls konar erfiðleika í lífi þess og peningar streyma inn vegna áheita. Hún telst því auðugasta kirkja landsins og er vel viðhaldið af þeim sökum. Þjóðsagan segir að þar heiti Engilsvík sem kirkjan stendur. 

„Áheitin fóru vaxandi á árunum 2003-2006 og hafa náð jafnvægi nú,“ sagði Baldur. „Það segir í gömlum munnmælum að Strandarkirkja borgi fyrir sig. Fólki þykir það og segir sögur af því.“

Baldur sagði að oft og tíðum fylgi bréfkorn áheitunum með vitnisburði. „Þegar ég er að segja eldra fólki frá Strandarkirkju og fer að tala um áheitin þá kannski réttir það upp höndina og segir sögu,“segir Baldur.

Sjómenn í lífsháska hétu að byggja kirkju á ströndinni, ef þeir kæmust lífs af. Þá sáu þeir skært ljós í landi, en það var ekki lengur þar, þegar þeir lentu heilu og höldnu, heldur stóð skínandi vera í flæðarmálinu og tók á móti þeim. Sjómennirnir efndu heit sitt. 

Með fyrirhuguðum Suðurstrandarvegi kemst Strandarkirkja nær alfaraleið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert