Pappírsvinna íslenska ólympíuhópsins er mun meiri fyrir Ólympíuleikana í Peking en fyrir aðra Ólympíuleika hingað til, samkvæmt upplýsingum frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands.
Stjórnvöld í Peking hafa gefið út tilmæli í 57 liðum til gesta á leikunum. Þar birtast nákvæmar útlistanir á því hvaða reglur gilda og jafnframt eru nefndir þeir hópar, sem eru „óvelkomnir“ til Kína. Á þeim lista eru m.a. „fjárhagslega ósjálfstæðir“ einstaklingar og fólk með geðsjúkdóma.
Árið 2001, áður en það lá fyrir að Kínverjar myndu halda Ólympíuleikana, lofuðu Kínverjar bót og betrun þegar kæmi að mannréttindum. Kínversk stjórnvöld og Alþjóðlega ólympíunefndin hafa samt aldrei birt opinberlega innihald samnings sem þau gerðu um Ólympíuleikana í Peking, andstætt því sem tíðkast hefur á öllum Ólympíuleikum til þessa.