Miriam Rose er ekki hætt að berjast gegn virkjunum og stóriðju á Íslandi þótt henni hafi verið um tíma í fyrra hótað brottrekstri úr landi fyrir að ráðast gegn grunngildum samfélagsins.
Miriam segist ekki hrædd við að taka þátt í frekari aðgerðum á vegum samtakanna Saving Iceland enda hafi brottvísunin á sínum tíma verið hneyksli á Íslandi. Hún segist hafa reynt að leiða fólki það fyrir sjónir að barátta samtakanna sé eðlileg og það sé rangt að hóta fólki brottrekstri úr landi ef það nýti sér tjáningafrelsi sitt. Hún segir að sú staðreynd að fallið hafi verið frá brottvísuninni bendi til þess að Útlendingastofnun hafi í raun viðurkennt að það sé ekki hægt að vísa fólki úr landi á þessum forsendum.
Fram kom í fjölmiðlum í fyrra að Miriam Rose hefði í bréfi til Útlendingastofnunar lofað því að taka ekki þátt í frekari aðgerðum sem gætu talist ólöglegar eða flokkast undir borgaralega óhlýðni á Íslandi. Þetta segir hún alrangt. Í bréfi til stofnunarinnar hafi hún sagst ætla að setjast að á Íslandi og auðvitað ætli hún ekki að vera hlekkjuð við vinnuvélar árið um kring. Baráttan fyrir betra lífi á jörðinni sé hinsvegar hennar ástríða og þannig hafi það verið frá því hún var barn. Hún sé ekki að fara að hætta henni.