Selatalning gekk vel

mbl.is/Brynjar Gauti

Mjög góð þátttaka var síðastliðinn sunnudag í selatalningu sem Selasetur Íslands á Hvammstanga stendur fyrir á Vatnsnesi. Talningamenn sem allir eru sjálfboðaliðar voru fjörutíu og átta en talningarsvæðið nær yfir 70 km.

Flestir notuðu talningamennirnir bíla til að komast ferða sinna en einn var á báti og annar á hesti. Talningamenn voru á öllum aldri og varð þetta hin besta skemmtun þar sem veðrið lék við hvern sinn fingur og dagurinn einn sá heitasti í sumar.

Stefnt er að því að selatalningin verði að árlegum viðburði og var þetta í annað sinn sem hún er gerð. Best er að komast að selnum til talningar á þessum árstíma og einnig er auðveldara að fá fólk til verksins, segir Hrafnhildur Víglundsdóttir, framkvæmdastjóri Selasetursins.

Svo dreifingin verði betri mun verða talið til skiptis í júlí og ágúst og var talningin í fyrra í lok ágúst.

Heimtur voru betri í ár en í fyrra og sáust 1125 selir en í fyrra voru þeir 727. Flestir voru selirnir við Sigríðastaðaós  eða 261, Krossanes 208 og í Hindisvík 191. Tuttugu selir voru greindir sem útselir en aðrir voru landselir.

Hrafnhildur sagði mikinn áhuga vera fyrir talningunni sem skilaði sér í auknum fjölda talningarmanna milli ára en í fyrra voru þeir þrjátíu. Aðallega sé þetta fólk af staðnum en þó sé þarna að finna einn og einn gestkomandi. Í ár tóku líka erlendir sjálboðaliðar þátt en þeir voru á svæðinu til að taka þátt í unglistahátíð.

Tilgang talningarinnar segir Hrafnhildur vera þann að komast að heildarfjölda sela við Vatnsnes. Eina leiðin til þess sé að smala fólki saman svo hægt sé að telja á allri strandlengjunni í einu.

„Við notum þessar tölur svo til að hafa yfirsýn yfir fjölda sela, hvort honum er að fjölga eða fækka. Þetta er nokkuð marktækt þar sem öll strandlengjan er talin á sama tíma og ólíklegt að sömu dýrin séu tvítalin. Fólk fær nákvæmar leiðbeiningar og eyðublað til verksins. Þetta er auðvitað ekki 100% nákvæmni en nokkuð mikil þó“ segir Hrafnhildur.

Aðstæður góðar til selaskoðunar

Óvenju margir selir eru við Vatnsnesið og látur eru þar líka aðgengileg. Selir eru að auki friðaðir í Hindisvík og hafa verið það í rúm sextíu ár. Það var því talinn góður kostur að byggja upp selaskoðunarstaði við Vatnsnesið og eru þeir nú orðnir þrír.

„Við bjuggumst við því að fá lægri tölu nú en í fyrra þar sem selum við landið hefur verið að fækka en svo var ekki og það kom skemmtilega á óvart. Skýringar þess eru sennilega nokkrar. Við vorum auðvitað að telja mánuði fyrr en í fyrra og því styttra frá kæpingartíma selanna. Kannski fjölgaði honum. Við komum ekki til með að vita meira fyrr en í ágústtalningu á næsta ári,“segir Hrafnhildur.

Fækkun sels undanfarin ár er óútskýrð. Því veldur að öllum líkindum einhverjar breytingar í hafinu og á fæðuframboði.

Rannsóknardeild kemst bráðlega á laggirnar hjá setrinu þar sem ætlunin er að rannsaka hvers vegna sel hafi verið að fækka. Búið er að ráða líffræðing til að starfa við rannsóknirnar og fleiri starfsmenn munu bætast við í haust.

 
Útskorinn selur eftir Guðjón Kristinsson kíkir þarna upp við Selasafnið.
Útskorinn selur eftir Guðjón Kristinsson kíkir þarna upp við Selasafnið. Selasetur Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert