Stórt hjólhýsi sem stolið var af stæði í Kópavogi fyrir þremur vikum fannst í sandnámum nærri Laugarvatni fyrir helgi. „Við drifum okkur austur, kvöldið sem lögreglan á Selfossi lét vita,“ segir Ragnhildur Bjarnadóttir, eigandi hjólhýsisins.
„Það var búið að brjótast inn og skemma þónokkuð og fjarlægja númeraplötuna. Öllu sem ekki var límt eða skrúfað fast, hafði verið stolið, þótt hlutir væru merktir okkur með nafni og jafnvel nærbrækur hurfu,“ segir
Ragnhildur, undrandi en sátt við að hjólhýsið skyldi þó hafa komið í leitirnar. Húsið var dregið í bæinn og menn frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík yfirfóru hjólhýsið í gærmorgun, tóku fingraför og könnuðu verksummerki. Þjófarnir eru hins vegar ófundnir.