Þungur róður í efnahagslífinu

„Ég held að menn séu ekki búnir að átta sig á því hve róðurinn verður þungur í vetur,“ segir Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri fasteignarekstrarfélagsins Nýsis, um horfurnar í íslensku efnahagslífi. Ekkert bendi til að ástandið muni skána á næstunni.

„Það tekur auðvitað töluverðan tíma fyrir aðhaldsaðgerðir fyrirtækja að skila árangri,“ segir hann, og spáir því að margt fólk með þriggja til sex mánaða uppsagnarfrest muni missa vinnuna í haust.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir orð Höskuldar í takt við spá samtakanna. Hann bendir á að vextir séu háir og aðgangur að lánsfé takmarkaður. „Hver vika sem líður er dýr.“ Hann segir að ennþá hafi ekki orðið vart við margar uppsagnir. „En ef aðstæður verða svona áfram versnar ástandið jafnt og þétt.“ Samkvæmt nýlegri könnun SA hefur tæpur þriðjungur aðildarfyrirtækja samtakanna þurft að glíma við lánsfjárskort. „Það verður mjög þungt ef þriðjungur fyrirtækja er svo veikur að þau lenda í verulegum hremmingum,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert