Viðurkennum ekki annað en hamingju

Greinin eins og hún birtist í L'Espresso.
Greinin eins og hún birtist í L'Espresso.

Ítalska viku­blaðið L’Espresso birti á föstu­dag langa grein um Ísland eft­ir ís­lenska blaðamann­inn Sig­ríði Víðis Jóns­dótt­ir. Rit­stjóri blaðsins hafði sam­band og vildi fá grein frá Íslend­ingi um hvað væri satt og rétt þessa dag­ana í um­fjöll­un­um um Ísland.

„Rit­stjóri L’Espresso hringdi í mig og sagði að Ísland væri í tísku þessa dag­ana. Vart væri hægt að opna blöð án þess að sjá um­fjöll­un um Ísland og hann vildi fá að vita hvort það sem væri að birt­ast væri nú alltaf sann­leik­an­um sam­kvæmt,“ seg­ir Sig­ríður.

Rit­stjór­inn vildi ekki bara fá álit Íslend­ings á efna­hags­legri um­fjöll­un held­ur líka á hlut­um eins og ís­lenskri mat­ar­gerð, jarðvarma, meintri lífs­ham­ingju og fleira en allt þetta hefði verið fjallað um ný­lega í er­lend­um fjöl­miðlum. Sig­ríður kem­ur því víða við í grein­inni og ræðir til dæm­is við  Vig­dísi Finn­boga­dótt­ur, fyrr­ver­andi for­seta Íslands, um hvort það sé rétt að Íslend­ing­ar séu ham­ingju­sam­asta þjóð í heimi. Seg­ir Vig­dís meðal ann­ars að Íslend­ing­ar myndu að minnsta kosti ekki viður­kenna neitt annað en að þeir væru ham­ingju­sam­ir. Það væri and­stætt eðli Íslend­ings að segja að hann væri óham­ingju­sam­ur.

Sig­ríður hafði nokkra daga til verks­ins en að því loknu fór grein­in í þýðingu því hún skrifaði á ensku. Grein­in birt­ist svo á ít­ölsku síðasta föstu­dag, mánuði eft­ir að hún lauk við hana.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem grein eft­ir Sig­ríði birt­ist í er­lend­um miðlum því í vor birt­ist eft­ir hana grein í In­ternati­onal Her­ald Tri­bu­ne um Ísland. Grein þess­ari var slegið upp í ít­alska blaðinu Corri­ere della Sera og fannst Sig­ríði lík­legt að L’Espresso hefði rek­ist á nafn henn­ar þar. Einnig hef­ur hún skrifað fyr­ir World Food Program, mat­væla­áætl­un Sam­einuðu Þjóðanna, og var sú grein þýdd á japönsku.

Skyldi Sig­ríður ætla að hasla sér völl á þess­um vett­vangi? „Ísland virðist vera vin­sælt þessa dag­ana svo það eru kannski mögu­leik­ar fyr­ir ís­lenska blaðamenn að næla sér í verk­efni er­lend­is. Ég tek þessu samt öllu með ró og stefni ekki á að leggja þetta fyr­ir mig sem aðalstarf. Hins veg­ar er gam­an að að kanna mál­in aðeins,“ seg­ir Sig­ríður að lok­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert