Lögreglu- og björgunarsveitarmenn fundu nú á sjöunda tímanum hóp göngumanna sem tilkynntu um kl. 2:45 í nótt að einn úr hópnum, breskur ferðamaður, hefði ökklabrotnað nærri Hagavatni á Kili. Erfitt er að athafna sig á svæðinu og er verið að meta hvort kalla eigi eftir aðstoð þyrlu við að flytja manninn.
Að sögn lögreglunnar á Selfossi eru tveir lögreglumenn og tveir sjúkraflutningamenn á staðnum ásamt fjórum björgunarsveitarmönnum úr hálendiseftirliti Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sem eru með bækistöð á Hveravöllum.
Lögreglumennirnir, sem komu fyrstir á svæðið, þurftu að ganga um tvo km til að nálgast staðinn sem hópurinn hafði gefið upp. Um kl. 6:20 komu þeir að hluta hópsins sem var að ferðast með manninum sem hafði fótbrotnað. Björgunarsveitarmenn nálgast nú þann slasaða.
Að sögn lögreglu er svæðið mjög erfitt yfirferðar og er talið mjög líklegt að þyrla Landhelgisgæslunnar verði kölluð á staðinn til þess að flytja þann slasaða á brott.