Dularfull skúta hefur legið við bryggju á Höfn í Hornafirði frá því í haust. Að sögn Útvarpsins var lengi vel ekki vitað hver eigandi skútunnar væri en nú fara tvær sögur af því. Alþjóðadeild lögreglunnar er með málið til rannsóknar og segir skipið vera í eigu belgísks tryggingafyrirtækis.
Útvarpið hefur hins vegar eftir Sigfúsi Harðarsyni,, hafnsögumanni í Hornafjarðarhöfn, að íslenskur maður hafi haft samband við sig fyrir skemmstu og sagt sér að hann hefði nýverið keypt skútuna. Bað Sigfús þá eigandann um að vitja skútunnar og greiða hafnargjöldin en það hefur hann enn ekki gert.