Geir H. Haarde, forsætisráðherra, er ásamt Ingu Jónu Þórðardóttur, eiginkonu sinni, í sumarleyfi í Noregi og hefur ekið þar um og heimsótt vini og kunningja. Í héraðsfréttablaðinu Østlendingen er fjallað um heimsókn þeirra hjóna til Elverum í gær.
Geir segir við blaðið, að megintilgangurinn með Noregsferðinni sé að slaka á en hann hafi haft áhuga á að heimsækja lýðháskólann í Elverum því hann hafi lesið mikið um sögu hans.
Fram kemur að Åsmund Mjelva, rektor skólans, hafi tekið á móti Geir og Ingu Jónu og frætt þau um söguna. Hákon konungur og norska stjórnin leituðu m.a. skjóls þar 10. apríl 1940 eftir að Þjóðverjar réðust inn í landið.
„Það er jákvætt og spennandi að forsætisráðherrann hafi viljað koma til Elverum og skólans til að kynna sér sögu Noregs," hefur blaðið eftir Mjelva.
Blaðið segir, að Geir sé af norskum ættum, tali norsku og hafi oft verið í Noregi. Hann hafi hins vegar sjaldan verið á eigin vegum í Noregi og segi að það sé ágætt að taka sér smá frí frá stjórnmálunum.
Østlendingen hefur eftir forsætisráðherrahjónunum, að það hefðu ekkert á móti því að sjá konung skógarins, elginn, á ferð sinni.
„Ég vona að þú hafi munað eftir að bjóða einum til kvöldverðar," sagði Inga Jóna við Åse Sagløkken, vinkonu sína. Sagløkken sagði að elgurinn sé þegar kominn, hann sé að vísu í pottinum. Blaðið segir að Geir og Inga Jóna gæti vel sé elg á fæti þegar þau aka í átt að Kristiansand.