Sala á lopapeysum hefur rokið upp úr öllu valdi vegna lágs gengis íslensku krónunnar. Prjónakonur landsins keppast við en samt er svo komið að skortur er á lopapeysum í algengum stærðum.
Þuríður Einarsdóttir formaður Handprjónasambandsins er hinsvegar ánægð með þessa þróun mála. Hún segir ljóst að ferðamenn eyði jafnmiklu fé og áður en fái meira fyrir sinn snúð.
Í verslun Handprjónasambandsins við Skólavörðustíg nú áðan áttu afgreiðslukonurnar fullt í fangi með að anna viðskiptavinum sem þessa dagana kvarta ekki yfir háu verði á íslenskum peysum.