Líkhúsdvölin á við nótt á hóteli

Kolbrúnu Baldursdóttur sálfræðingi brá í brún á dögunum þegar hún fékk reikning fyrir útfararþjónustu vegna andláts í fjölskyldunni. Á bloggsíðu sinni www.kolbrunb.blog.is bendir hún á að gjald fyrir geymslu á líki samsvari allt að einnar nætur gistingu á ágætis hóteli.

 „Líkgeymslugjald fyrir þrjá sólarhringa var 19.000 krónur,“ segir Kolbrún í samtali við 24 stundir. Hún bendir á að misjafnt sé eftir sveitarfélögum hvort slíkt gjald er innheimt. „Það er ekkert rukkað annars staðar og svo geta taxtar verið mismunandi,“ segir Kolbrún.

Þarf að vera samræmi

„Þetta er spurning um samræmi og að allir sitji við sama borð,“ segir Kolbrún sem telur að það þurfi að vekja athygli fólks á þessu ósamræmi. Á bloggsíðu sinni bendir hún jafnframt á að kostnaðurinn sé fólki ekki efst í huga þegar einhver nákominn fellur frá. „Fólk er eðlilega lítið að huga að einstaka kostnaðarliðum á sama tíma og það er að syrgja og mitt í erfiðu ferli sem undirbúningur útfarar ástvinar krefst,“ segir hún.

Ekki heimild til gjaldtöku

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma hófu innheimtu líkhúsgjalda árið 2004 en gjaldtökunni var hætt árið 2006 í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis taldi að ekki hefði verið heimild í lögum fyrir Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma til að innheimta svokallað líkhúsgjald fyrir geymslu á líkum í líkhúsi kirkjugarðanna í Fossvogi. Beindi hann þeim tilmælum til Kirkjugarðanna að þeir tækju gjaldtökuna til endurskoðunar.

Jafnframt beindi umboðsmaður þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra að hann tæki sérstaklega til athugunar hvort ákvæði laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu séu nægilega skýr um hvaða þjónustu ætlast er til að kirkjugarðar láti almenningi endurgjaldslaust í té.

Í hnotskurn
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Frumvarpið er unnið á grundvelli tillagna nefndar sem skipuð var af dóms- og kirkjumálaráðherra.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert