Framkvæmdastjóri Landverndar sakar samgönguráðherra um skilningsleysi þegar hann gagnrýnir fyrirhugaðar vegaframkvæmdir um Gjábakka, Teigskóg og við Dettifoss.
Hann bendir á að nú séu uppi a.m.k. þrenn áform, þ.e. Gjábakkavegur, vegur um Teigskóg og Dettifossvegur, þar sem verulegir náttúruverndarhagsmunir séu í húfi.
„Svo virðist sem samgönguráðherra skorti annað hvort skilning á náttúruvernd eða pólitískt þor til þess að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða,“ segir Bergur.
Fram kemur í ályktun aðalfundar Landverndar að skorað sé á samgönguráðherra að nýr Dettifossvegur verði lagður sem næst núverandi vegi en ekki með Jökulsá, örstutt frá ánni ofan í hamfarahlaupsfarvegi hennar, eins og útboð Vegagerðarinnar geri ráð fyrir.