Framkvæmdastjóri Landverndar sakar samgönguráðherra um skilningsleysi þegar hann gagnrýnir fyrirhugaðar vegaframkvæmdir um Gjábakka, Teigskóg og við Dettifoss.
„Það er komin tími til þess að samgönguyfirvöld fari að sýna náttúru Íslands tilhlýðilega virðingu. Það er með öllu óþolandi að hvernig Vegagerðin er farin að hegða sér eins og ríki í ríkinu á meðan samgönguráðherra skellir við skollaeyrum í hverju málinu á fætur öðru,“ segir Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar í tilkynningu.Hann bendir á að nú séu uppi a.m.k. þrenn áform, þ.e. Gjábakkavegur, vegur um Teigskóg og Dettifossvegur, þar sem verulegir náttúruverndarhagsmunir séu í húfi.
„Svo virðist sem samgönguráðherra skorti annað hvort skilning á náttúruvernd eða pólitískt þor til þess að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða,“ segir Bergur.
Fram kemur í ályktun aðalfundar Landverndar að skorað sé á samgönguráðherra að nýr Dettifossvegur verði lagður sem næst núverandi vegi en ekki með Jökulsá, örstutt frá ánni ofan í hamfarahlaupsfarvegi hennar, eins og útboð Vegagerðarinnar geri ráð fyrir.
Jafnframt er lögð áhersla á að vegurinn vestan Jökulsár verði ferðamannavegur en framtíðarþjóðleiðin verði lögð austan Jökulsár.