Síðasta veiðiferðin

Skipin tvö í Akureyrarhöfn.
Skipin tvö í Akureyrarhöfn.

Tvö af af elstu skip­um Sam­herja komu ný­lega úr sinni síðustu veiðiferð eft­ir lang­an og far­sæl­an fer­il hjá fé­lag­inu. Eru þetta Norma Mary, áður Ak­ur­eyr­in EA-110, og Víðir, áður Apríl HF. Skip­in stunduðu bæði bol­fisk­veiðar og ár eft­ir ár hafa þau verið meðal þeirra ís­lensku skipa sem skilað hafa mestu afla­verðmæti. 

Fram kem­ur á heimasíðu Sam­herja, að Norma Mary var fyrsta skipið sem Sam­herji eignaðist og eigi sér því sér­stak­an sess í sögu fé­lags­ins. Hún var byggð í Póllandi árið 1974 og hét Guðsteinn þegar nú­ver­andi eig­end­ur Sam­herja eignuðust fyr­ir­tækið árið 1983. Skip­inu var breytt í frysti­tog­ara og var meðal þeirra fyrstu hér á landi sem út­búið var til að full­vinna og frysta afla um borð. Skipið var selt árið 2002 til dótt­ur­fyr­ir­tæk­is Sam­herja í Bretlandi, Onw­ard Fis­hing Comp­any og nefnd Norma Mary. 

Skipið kom úr síðustu ferðinni með full­fermi eða tæp­lega 450 tonn af þorsk­flök­um að verðmæti rúm­lega 300 millj­ón­ir króna.  Skip­stjóri á Normu Mary síðustu árin var Ásgeir Páls­son.

Tog­ar­inn Víðir hét áður Apríl HF og var keypt­ur frá Hafnar­f­irði árið 1985. Víðir var eins og Norma Mary smíðaður í Póllandi árið 1974.  Hann var lengd­ur og breytt í frysti­skip árið 1991 og tals­vert end­ur­nýjaður árið 2002. Skip­stjóri síðustu ár á Víði var Sig­mund­ur Sig­munds­son.

Sam­herji seg­ir, að þess­ar breyt­ing­ar séu liður í því að end­ur­nýja skip fé­lags­ins og að laga skipa­flota fyr­ir­tæk­is­ins að afla­heim­ild­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert