Börn hafa löngum verið dugleg við að styrkja Rauða Krossinn með því að halda tombólur. Oft má sjá þau við stórmarkaði eða á götum úti þegar veður er gott og bjóða þá ýmsan varning til sölu eða eru með tombólu. Rauði Krossinn lætur ágóðann renna til fátækra barna svo þarna eru börn að safna fyrir börn.
Hundruð barna leggja árlega leið sína
til Rauða krossins og láta félagið njóta ágóðans. Bara nú í sumar hafa þannig safnast rúmlega 70.000 krónur.
Hin hefðbundna söfnunaraðferð barna eru gömlu góðu tombólurnar en hugmyndaríkir krakkar láta ekki alltaf þar við sitja heldur finna upp fjölbreyttar og skemmtilegar fjáröflunarleiðir.
Ellefu ára stúlka ákvað til dæmis að vinna ýmis viðvik fyrir vini og kunningja og bætti við upphæðina með því að safna flöskum og dósum sem hún fékk skilagjald fyrir. Fjórar stelpur úr Garðabænum máluðu steina og seldu. Tvær vinkonur tóku til í görðum og fengu greitt fyrir. Nokkrar stelpur í Hveragerði og Selfossi útbjuggu kort og seldu. Þær afhentu ágóðann í þjónustumiðstöð vegna jarðskjálftanna og vildu með því sýna þakklæti fyrir framlag Rauða krossins vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi.Framlagið kemur alltaf í góðar þarfir og er á hverju ári lagt í verkefni sem styður fátæk börn.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur skapast sú hefð að Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins hafi milligöngu um að bjóða hinum ungu sjálfboðaliðum í bíó í lok ársins og hefur það mælst vel fyrir. Auk þess fá krakkarnir send bréf með upplýsingum um í hvað framlagi þeirra var varið það árið.
Hérna má sjá myndir af börnum sem lagt hafa Rauða Krossinum lið.