Lögreglan í Reykjavík fékk laust fyrir hádegi tilkynningu um að karlmaður væri allsnakinn á göngu í Esjuhlíðum í um 600 metra hæð á uppleið. Útvarpið hafði eftir sjónarvotti, að maðurinn hefði meira að segja verið sokkalaus.
Sporhundar aðstoða nú lögreglu- og björgunarsveitarmenn við að leita að manninum. Lögreglan telur sig vita hver sé þarna á ferðinni, en hann er sagður vera á þrítugsaldri.
Tvær konur sem voru að ganga Esjuna mættu manninum í um 600 metra hæð og létu lögreglu vita.
Að sögn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar er svartaþoka á Esjunni og leitarskilyrði erfið.