Langi Mangi, elsta kaffi- og ölhús Ísafjarðar, leggur um laupana um næstu mánaðarmót. Staðurinn hefur verið rekinn frá árinu 2003 þegar Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir opnuðu hann. Árið 2005 urðu eigandaskipti þegar Guðmundur Hjaltason og Matthildur Helgadóttir keyptu staðinn og hafa þau rekið hann síðan.
Frá stofnun staðarins hefur Langi Mangi verið fastur punktur í tilveru Ísfirðinga
og staðið fyrir ýmsum menningarviðburðum svo sem myndlistasýningum,
leiksýningum, bókaupplestri, ljóðakvöldum og tónleikum auk hinnar
geysivinsælu spurningakeppni Drekktu Betur í viku hverri.
Langi
Mangi ætlar þó ekki að deyja hljóðlega heldur mun hann efna til viku
kveðjuhátíðar sem stendur frá og með deginum í dag til fimmtudagsins
31. júlí. Margt spennandi verður á dagskrá þessa síðustu daga svo sem
ljóðakvöld, bingó, lágmenningarkvöld, drekktu betur, gítarkarókí og
lokaball svo eitthvað sé nefnt.