Óðum styttist í að gsm-væðingu hringvegarins ljúki. Fjarskiptasjóður hefur yfirumsjón með framkvæmdinni en meðal markmiða sjóðsins er að gsm-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1, öðrum helstu stofnvegum og vinsælustu ferðamannastöðunum. Auk þess að auka aðgengi að farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins er ætlunin að efla öryggi vegfarenda.
Fjarskiptasjóður var stofnaður árið 2005. Í lögum um sjóðinn, sem tóku gildi 30. desember sama ár, segir að sjóðurinn sé eign ríkisins en varsla hans og dagleg umsýsla heyri undir samgönguráðuneytið. Lögin falla hinsvegar úr gildi í lok ársins 2011 og mun inneign sjóðsins, eftir uppgjör verkefna við þau tímamót, renna í ríkissjóð.
Ákveðið var að veita 2,5 milljarði af söluandvirði Símans í sjóðinn en árið 2005 keyptu Skipti ehf. Landssíma Íslands hf. fyrir 66,7 milljarða. Í fjárheimildum var kveðið á um að Fjarskiptasjóður fengi úthlutað einum milljarði árið 2005 og síðan 500 milljónum kr. á ári til ársins 2009, að árinu 2007 undanskildu.
Ákveðið var að setja hringveginn og fimm fjallvegi, Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjall, Fagradal og Fjarðarheiði, í forgang og kom það því í hlutverk Símans að sjá um það verkefni. Samkvæmt tilboðinu átti verkinu að ljúka í janúar sl. en vegna ófyrirséðra erfiðleika, t.d. varðandi veðurfar, tókst það ekki. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki innan tveggja vikna en þá verður kveikt á síðasta sendinum.Síðari áfangi verkefnisins fól í sér styrkingu farsímaþjónustu á öðrum helstu stofnvegum, m.a. á Vestfjörðum, Norðausturlandi og Snæfellsnesi, og á sérstaklega völdum ferðamannastöðum, t.d. í þjóðgörðunum við Snæfellsjökul og í Jökulsárgljúfrum. Samið var um að verkinu yrði lokið í desember í ár en útlit er fyrir að verkinu ljúki á undan áætlun.
Markmið Fjarskiptasjóðs lúta ekki að því að tryggja öllum íbúum landsins farsímasamband en hjá Símanum og Vodafone fengust þær upplýsingar að kerfi þeirra næðu til yfir 99% Íslendinga og væri enn unnið í að efla kerfið með uppsetningu nýrra senda.