Ísfirskir knattspyrnumenn öttu í dag kappi við knattspyrnulið skemmtiferðaskipsins Delphin. Fóru leikar svo að gestir sigruðu með fimm marka mun enda reyndist liðið vera heimsmeistarar í fótbolta.
Hópur skipaður rjóma ísfirskra knattspyrnumanna spilaði í dag á Torfnesvelli við
skipverja skemmtiferðaskipsins Delphin. Það er fréttavefurinn Bæjarins besta sem skýrir frá þessu.
Að sögn
umboðsmanns skipsins á Ísafirði hafði skipstjórinn samband í gærkvöldi
og óskaði eftir kappleik. Þóttist hann víst fullviss um sigur sinna
manna gegn hverju sem Ísafjörður ætti og efaðist ekki um hæfileika
þeirra á knattspyrnuvellinum. Ákveðið var að liðið skyldi vera sjö manna.
Að loknum leik þar sem Ísfirðingar lögðu sig alla fram stóðu þó stigin svo að gestir sigruðu, 6:1.
Raunin var sú að áhöfn skipsins er sigurvegari á heimsmeistaramóti skemmtiferðaskipa í fótbolta og því engir aukvisar á ferð.
Sveið Ísfirðingum nokkuð ósigurinn og ákveðið hefur verið að gera fótboltaleikinn að árlegum atburði.
Sömuleiðis mun erlenda liðið ekki vera svo vanmetið að ári og munu þá fullskipuð fótboltalið mætast, það er ellefu manns í stað sjö.