Frystitogarinn Venus HF er nú að veiðum langt inni í rússnesku lögsögunni í Barentshafi. Fram kemur á heimasíðu HB Granda, að aflabrögðin hafi verið frekar róleg. Aflinn sé aðallega þorskur en einnig veiðist ýsa með þorskinum.
Steindór Sverrisson, gæðastjóri HB Granda, hefur eftir Haraldi Árnasyni, skipstjóra, að Venus sé einn á veiðisvæðinu og það auðveldi ekki leitina. Aflinn hafi mest farið upp í um 20 tonn á sólarhring.
Venus er mjög austarlega á veiðisvæðinu og tók það fimm og hálfan sólarhring að sigla þangað. Farið var í Barentshafið um leið og úthafskarfavertíðinni lauk.
„Það tafði skipið reyndar að rússneski flotinn var með heræfingar í Barentshafi þegar Venus HF kom inn í rússnesku lögsöguna og þar sem að stórum svæðum var lokað fyrir almennri skipaumferð þá þurftu Haraldur og hans menn að taka stóran krók framhjá þessu bannsvæði,” segir Steindór.