Hrefna barðist fyrir lífi sínu við hóp háhyrninga

Sjórinn litaðist blóði.
Sjórinn litaðist blóði. mbl.is/Heimir Harðarson

Hóðpur ferðamanna í hvalaskoðun á Skjálfanda fylgdist agndofa með miklu sjónarspili þegar vaða af háhyrningum réðst að hrefnu, drápu hana og átu. Um 100 farþegar tveggja báta frá hvalaskoðuninni Norður-Siglingu á Húsavík urðu vitni að atrennunni sem varði hátt í klukkustund og var fólkinu, sem flest var erlent, mjög brugðið, að sögn Heimis Harðarsonar, markaðsstjóra Norður-Siglingar.

„Það átti auðvitað enginn von á því að horfa þarna upp á slátrun, en við tókum þá ákvörðun að fylgjast með þessu náttúrufyrirbrigði enda er þetta mjög óvenjulegt.“

Talið er að þetta sé í fyrsta skipti sem árás háhyrninga á sér stærra spendýr næst á mynd við Ísland, en staðfest tilfelli eru um slíkt erlendis. Háhyrningar eru efstir í fæðukeðju rándýra í sjónum og gjarnan kallaðir úlfar hafsins. Þeir skiptast hins vegar í tvo hópa, sem sumir vilja meina að séu sitt hvor tegundin, annar þeirra lifir nær eingöngu á fiski en hinn veiðir spendýr af öllum stærðum.

Talið er að háhyrningar við Ísland tilheyri fyrst og fremst fyrrnefnda hópnum, en greinilegt er að þeir sem voru á ferðinni í Skjálfanda á þriðjudagskvöldið voru alvanir drápshvalir.

 „Þetta var greinilega mjög skipulagt hjá þeim og ekkert óðagot,“ segir Heimir. „Þeir létu eins og sá sem valdið hefur og kálfarnir stukku þarna í kring og léku sér í blóðinu.“ Aðgerðirnar hafi greinilega verið mjög samhæfðar, enda hafi þeir umkringt hrefnuna og haft hana tveir og tveir á milli sín á meðan þeir gerðu atlögu að henni, en bátsmönnum telst til að um 20-30 dýr hafi verið að ræða.

Að sögn Heimis mátti greina angist hjá hrefnunni helsærðri og sjórinn litaðist blóði. „Hún var orðin svo ringluð að hún synti á bátinn tvisvar sinnum og einu sinni fannst okkur eins og hún ætlaði að fela sig undir bátnum því hún stefndi bara beint á hann og reyndi að brölta undir hann.“

Hrefnunni tókst hins vegar ekki að flýja heldur drapst hún af sárum sínum eftir hetjulega baráttu og varð þá mikil veisla fyrir háhyrningana sem skiptu fengnum á milli sín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert