Karpað um sparkvöll í Skerjafirði

„Ég set ég stórt spurningarmerki við aðkomu hans að málinu. Hann á auðvitað hagsmuna að gæta sem íbúi og eðlilegt að hann leiti svara vegna framkvæmda sem þessara. En ég fæ ekki betur séð en að hann sé að beita sér sem forsetaritari og það finnst mér óeðlilegt,“ segir Jón Þór Víglundsson, íbúi í Skerjafirði.

Hann vísar þar til afskipta Örnólfs Thorssonar, íbúa í Skerjafirði, af framkvæmdum við sparkvöll í hverfinu og póstsendinga frá netfangi forsetaembættisins til stjórnarmanna í íbúasamtökum hverfisins.

„Þetta er alrangt. Það má vel vera að ég hafi í einhverjum pósti gleymt að þurrka út undirskrift en allir stjórnarmenn áttu samskipti á sínum vinnupóstföngum, enda áttu þeir ekki von á því að póstarnir færu fyrir annarra augu en stjórnarmanna,“ segir Örnólfur Thorsson.

24 stundir hafa afrit af tölvupóstunum. Þar er framkvæmdinni mótmælt og ekki síður hvernig að kynningu á henni var staðið.

Hugmyndum um sparkvöll á svæði milli Bauganess og Skildinganess hefur af til verið hreyft á síðustu árum. Í byrjun mánaðar komu jarðýtur og ruddu og sléttuðu svæðið. Hús Örnólfs stendur nærri svæðinu og fékk hann framkvæmdir stöðvaðar um tíma. Í kjölfarið tóku fulltrúar minnihlutans málið upp í borgarráði.

„Það vekur athygli að nokkrum klukkutímum eftir að framkvæmdir hefjast sé komin fram fyrirspurn um málið í borgarráði.

Ég vildi óska að Örnólfur legðist á sveifina með okkur í að finna varanlega lausn á sparkvallamálum hverfisins. Það er greinilega gott að hafa hann með sér,“ segir Jón Þór Víglundsson.

„Það er fjarri öllu lagi að ég hafi beitt mér þarna með óeðlilegum hætti,“ segir Örnólfur Thorsson.

Í svari borgarstjóra við fyrirspurn fulltrúa minnihlutans segir m.a. að svæðið sé útivistar- og leiksvæði samkvæmt deiliskipulagi. Gerð sparksvæðis hafi verið sett inn á tillögu til umhverfis- og samgönguráðs um framkvæmdir ársins og kynnt á samráðsfundi borgarstjóra í Vesturbæ sl. vor. Ekki hafi annað verið vitað en að full eining væri um framkvæmdina en þegar í ljós hafi komið að svo var ekki hafi verið reynt að mæta sjónarmiðum sem flestra.

„Þarna er verið að bæta leikaðstöðu barnanna en við bíðum átekta með að setja upp mörkin,“ sagði Ólafur F. Magnússon borgarstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert