Fær bætur vegna vinnuslyss

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða starfsmanni Heilbrigðisstofunar Suðurlands tæpar 4 milljónir króna í bætur vegna óhapps, sem starfsmaðurinn varð fyrir árið 2003 þegar hann var við vinnu. Taldi dómurinn að óhappið mætti rekja til vanbúnaðar á vinnustaðnum.

Óhappið varð, þegar starfsmaðurinn var að ýta sjúklingi í hjólastól út á svalir hússins svo hann gæti reykt þar. Starfsmaðurinn rann til í hálku á skábraut og hlaut áverka á hægri fæti. Varanlegur miski vegna afleiðinga slyssins var metinn 12 stig og varanleg örorka 12%.

Vinnueftirlitið taldi, að ísing hefði myndast skyndilega á skábrautinni en yfirborð brautarinnar hafi ekki verið ekki nægilega stamt  til að draga úr hálkumyndun. Var ríkið fyrir hönd sjúkrahússins því talið bera skaðabótaábyrgð á slysinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert