Farþegar færa sig aftar í vélina

„Við höfum séð um 10% fækkun farþega á Saga Class, það sem af er ári,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, spurður um hvort fyrirtækið sjái tilhneigingu viðskiptavina sinna til þess að draga úr kostnaði. Í spurningunni er sérstaklega vísað til fyrirtækja en eins og fram hefur komið hefur bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch dregið umtalsvert úr notkun einkaþotu fyrirtækisins og hvatt til aðhalds í ferðakostnaði.

„Við höfum þó ekki séð fólk hætta að ferðast heldur færir það sig aftur í vélarnar, þ.e. á almennt farrými,“ bætir Birkir við en eins og mörgum er kunnugt færðist það mikið í aukana þegar góðærið margumrædda stóð sem hæst að í vinnuferðum ferðuðust starfsmenn íslenskra fyrirtækja á Saga Class.

„Fjöldi fyrirtækjaferða hefur því ekki dregist saman hjá okkur þannig að við höfum tekið eftir,“ segir Birkir og tekur fram að þar sé verið að ræða um íslenska markaðinn. „Við höfum séð aukningu á Saga Class-ferðum í flugi til Íslands og yfir hafið á erlendu mörkuðunum okkar. Þannig að það er aðallega út úr Íslandi sem við erum að sjá þennan 10% samdrátt á Saga Class en við erum sem sagt ekki að missa þessa farþega, þeir eru einfaldlega að færa sig aftur í.“

Aðspurður hvort Icelandair hafi reynt að koma til móts við viðskiptavini sína með lækkun fargjalda á Saga Class þegar um viðskiptaferðir er að ræða segir Birkir svo ekki vera. „Við höfum aðlagað samninga okkar við fyrirtæki þannig að ef fólk vill frekar ferðast á almennu farrými taka samningar mið af því. Við erum með fjögur stig á Saga Class-fargjöldum auk þess sem fyrirtæki hafa mismikinn afslátt eftir tíðni ferða,“ segir Birkir.

Útlit er fyrir töluverðan samdrátt í efnahagslífinu á næstu mánuðum og jafnvel árum og því kannski eðlilegt að ætla að fyrirtæki muni auka enn frekar aðhald í ferðakostnaði. Birkir segir framtíðarbókanir þó ekki virðast vera að minnka, að minnsta kosti ekki umfram þær ferðir sem Icelandair hefur sjálft hætt við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert