Útlit er fyrir að björgunarsveitir við hálendisgæslu fái mun fleiri hjálparbeiðnir í sumar en áður. Sæunn Ósk Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir fleiri ferðamenn á hálendinu og ein kenningin sé sú að að fólk sé óhræddara við að leigja sér stóra bíla hér á landi og fara lengra vegna gengisfalls íslensku krónunnar.
Björgunarsveitarmenn hafa fengið 150 hjálparbeiðnir á þeim fjórum vikum sem liðnar eru af hálendisgæslu sumarsins. Hjálparbeiðnir voru alls 200 fyrsta árið en fóru upp í 250 í fyrra.
Þetta er þriðja árið sem björgunarsveitarmenn hafa fasta viðveru á hálendinu frá lokum júní og fram til tíunda ágúst. Sæunn Ósk segir að útlit sé fyrir að tala hjálparþurfi á hálendinu haldi enn áfram að stíga. Hún neitar því að fólk flykkist upp á hálendið, beinlínis vegna þess að þar eru hundruð björgunarsveitarmanna við störf, en segir að eflaust skapi það öryggiskennd hjá einhverjum.
Björgunarsveitir vinna allt starfið í sjálfboðavinna en bensínstöðvar N1 leggja til olíu. Ekki eru til tölur um heildarkostnað þessu samfara.